Yfirlýsing frá Ræstitækni


Vinnufyrirkomulag hjá Ræstitækni

Nýverið hafa birst ýmsar fullyrðingar í fjölmiðlum frá fulltrúum Eflingar varðandi Ræstitækni og samskipti Ræstitækni við okkar starfsfólk sem eiga ekki við rök að styðjast og teljum við því rétt að svara og útskýra okkar hlið málsins.

Hjá okkur starfar fólk eftir tímavinnukerfi en ekki í ákvæðisvinnu. Í því felst m.a. að okkar starfsfólk fær greidd laun fyrir unna tíma í dagvinnu með greiddum kaffipásum og fær greidda eftirvinnu ef einhver er.

  • Laun hjá starfsfólki Ræstitæni hafa alltaf fylgt kjarasamningum Eflingar og SA um tímavinnu
  • Laun okkar fólks hafa ekki dregist saman heldur vaxið og allt okkar starfsfólk fær borgað yfir taxta.

Til að skipuleggja daginn er áætlaður tími fyrir hvert verkefni, enda eru sum þeirra smá á meðan önnur eru umfangsmeiri og tímafrekari. Við áætlum rúman tíma fyrir hvert verkefni en sá tími er til viðmiðunar og það sama á við um fjölda verkefna yfir daginn.

  • Ef ekki tekst að ljúka við verkefni dagsins samkvæmt tímavinnu og innan dagvinnutíma – og vilji starfsmaður vinna lengur – er greidd eftirvinna samkvæmt kjarasamningum um tímavinnu.
  • Vilji /geti starfsmaður ekki unnið lengur en hefðbunda dagvinnu er verkefnið klárað af öðrum starfsmanni sama dag eða daginn eftir.

Flest fyrirtæki með bílaflota notast við GPS búnað í þeim tilgangi að fylgjast með aksturslagi og til að staðfesta viðveru starfsfólks á verkstað. GPS búnaður okkar staðfestir það sem nær allt starfsfólk hefur haldið fram þ.e.

  • Að tíminn sem er áætlaður fyrir hvert verk er rúmur og er ræstingum oftast lokið vel innan marka þess tíma.

 

Matmálstímar og aðstaða

Við gerum vel við okkar fólk, starfsmannavelta okkar er lág og starfsaldur  hár miðað við okkar samkeppnisaðila.

  • Á kaffistofu Ræstitækni í starfsstöð okkar á Nýbýlavegi 32 bjóðum við uppá staðgóðan morgunverð fyrir allt okkar starfsfólk, ásamt því að bjóða upp á nesti út í daginn á kostnað fyrirtækisins.
  • Starfsfólki er einnig gefinn kostur á að sækja tungumálanámskeið tvisvar í viku á kostnað fyrirtækisins. Það teljum við mikilvægt til að tryggja vellíðan, virkni og þátttöku okkar fólks í samfélaginu.

Vinnudagurinn er skipulagður með tveimur hléum sem hægt er að nota til að matast. Ekki er því um formlegt matarhlé á ákveðnum tíma. Er þetta gert að ósk starfsmanna sem vilja nýta þennan sveigjanleika til að hætta fyrr á föstudögum (sjá nánar hér að neðan).

Varðandi aðstöðu til að matast. Okkar fólk er mikið á ferðinni en það getur eftir atvikum borðað í fyrirtækjum sem að við störfum fyrir, í bakaríum, veitingastöðum, í bílnum og á bensínsstöðvum eftir hentisemi.

Starfsfólk okkar getur notað salerni í fyrirtækjum sem við störfum fyrir, stærri fjölbýlum eða bensínsstöðvum eftir því sem við á, þar sem við erum eðli málsins samkvæmt mikið á ferð yfir daginn.

Vinnufyrirkomulag – lengra helgarfrí


Okkar starfsfólk tekur sín kaffihlé skv. kjarasamningu um tímavinnu. Öllu okkar starfsfólki stendur til boða (ekki skylda) að vinna af sér hálfan föstudaginn með því að hafa hléin samtals 30 mínútur á dag og vinna hálftíma lengur frá mánudegi til fimmtudags. Þannig getur okkar fólk hætt á hádegi á föstudögum og fengið þannig lengra helgarfrí.

  • Umrætt fyrirkomulag hefur mælst vel fyrir og er mikil ánægja með það á meðal starfsmanna.

 

Efling, störf trúnaðarmanna og aðstæður á meðgöngu

Starfskona Ræstitækni steig fram í fjölmiðlum og sagði fyrirtækið ekki hafa tekið tillit til hennar þarfa á meðgöngu. Okkur Þykir leitt að heyra að það hafi verið upplifun hennar.

Stjórendur Ræstitækni komu með ýmsar tillögur að úrbótum til hennar.

  • Meðal annars var henni boðinn auka klukkutími í hlé yfir daginn á launum umfram aðra, sem hún þáði.

Þá var fenginn ráðgjafi frá Vinnuvernd til að framkvæma áhættumat til þess að meta vinnuaðstæður hennar vegna þungunar og á grundvelli þess voru lagðar til breytingar á vinnuskilyrðum hennar.

  • Við úttekt Vinnuverndar tjáði hún sig um að hafa þurft að pissa í fötu í bílnum vegna skorts á aðgengi að salerni. Í kjölfarið var farið yfir möguleika á að nýta salerni og reynt að bæta úr eftir bestu getu. Sem fyrr segir hafði hún á þessum tíma auka klukkustund í hvíld á hverjum vinnudegi og bíl til umráða.
  • Var henni boðið að vinna á verkstöðum þar sem greiðara aðgengi var að salerni, auðveldari vinnuaðstaða (t.d. minna af stigum) og starfa nær starfsstöð fyrirtæksins. Því hafnaði hún.

 

Lög­menn Efl­ing­ar báðu stjórn­end­ur Ræsti­tækni um að skrifa bréf og rök­styðja það að við töld­um að umrædd starfskona ætti að fá lengri rétt til fæðing­ar­or­lofs vegna þess að við höfðum nú þegar gert ráðstafn­ir varðandi breyt­ingu á vinnu­tíma og skil­yrðum en þrátt fyr­ir það hafi ekki tek­ist að tryggja henni viðun­andi starfsaðstæður í sam­ræmi við veik­indi henn­ar á meðgöngu að þeirra sögn.

  • Fyr­ir­tækið hafði ít­rekað boðið henni að skipta um plan þar sem styttra var í sal­erni, minna af stig­um og vera nær starfs­stöð fyr­ir­tæk­is­ins sem hún þáði ekki. Hún þáði þó klukku­stund í aukið hlé við sín­ar kjara­samn­ings­bundn­ar pás­ur og hafði því sam­tals eina og hálfa klukku­stund í kaffi/​mat/​pás­ur. Við gát­um ekki rök­stutt að þær ráðstaf­an­ir sem fyr­ir­tækið hafði gripið til hafi ekki verið full­nægj­andi, fyr­ir­tækið var þó til­búið til að veita henni leyfi frá störf­um. Þess má geta að um­rædd­ur starfsmaður fékk launað leyfi á meðan málið var til skoðunar en ekki lá fyr­ir vott­orð um viðvar­andi veik­indi eða sjúk­dóm.

Efling heldur því fram að mælingar erlends sérfræðings hafi sýnt að ómögulegt væri að vinna þá vinnu sem fyrir lá á tilætluðum hraða. Sá sérfræðingur sagði að vinnutaktur umrædds starfsmanns á verkstað hefði þurft að vera 190, en eðlilegur vinnutaktur samkvæmt kjarasamningum væri 100. Sjálfsagt er að kanna þetta mál nánar, en okkar gögn og ítarlegar samræður við starfsfólk sýna ekki fram á þetta. Við ítrekum að allt starfsólk okkar vinnur eftir fyrirkomulagi um tímavinnu en ekki ákvæðisvinnu.

 

Störf trúnaðarmanna

Efling heldur því fram að stjórnendur Ræstitækni hafi haft óeðlileg afskipti af störfum trúnaðarmanns. Við teljum það vera rangt. Eftir trúnaðarmannafund hjá Eflingu tjáði trúnaðarmaður vinnufélögum að þeir væru að fá 20% of lág laun hjá fyrirtækinu. Sú fullyrðing byggði á þeim misskilningi að unnið væri í ákvæðisvinnu hjá fyrirtækinu. Það er rangt en þar er unnið eftir hefðbundinni tímavinnu, með greiddum kjarasamningsbundnum kaffipásum og eftirvinnu eins og farið er yfir hér að ofan.

  • Það er rétt að trúnaðarmaður hafi verið beðinn um að leiðrétta þá rangfærslu við starfsfólk, eins og eðlilegt er þegar um misskilning er að ræða.
  • Okkur þykir leitt að trúnaðarmaður hafi upplifað leiðréttinguna sem óþægilegan þrýsting, við munum því yfirfara verklag okkar í slíkum málum og læra af.

Það er einnig alfarið rangt að starfsmanni hafi verið bannað að sækja trúnaðarmannanámskeið eða að fyrirtækið hafi neytað að greiða henni laun á meðan námskeiðið stóð yfir. Slík námskeið eru kjarasamningsbundinn réttur trúnaðarmanna og þarf ekki „leyfi“ vinnuveitenda til að mæta á slíkt.

  • Einu athugasemdir okkar varðandi trúnaðarmannanámskeiðið, voru ítrekaðar fyrirspurnir til Eflingar um hvort trúnaðarmanni yrði ekki örugglega útvegaður túlkur á námskeiðunum, enda talaði hún litla sem enga ensku né íslensku á þeim tíma. Því tók Efling fálega. Fyrir liggja skrifleg samskipti milli okkar og Eflingar sem staðfesta þetta.

 

Við hvetjum alla þá vilja fræðast nánar um aðbúnað okkar fólks til að setja sig í samband við okkur, hvort sem er starfsfólk á skrifstofu eða við okkar starfsfólk í ræstingum . Allt okkar fólk er frábært, hugsandi fólk með fjölbreytta reynslu sem hika ekki við að tjá sig um ólík málefni.

Undirritaður er í síma 863-8855 og í tölvupósti thorir@rtk.is Ræstitækni sími 419-1000

 

Með vinsemd og virðingu

Ræstitækni ehf

Þórir Gunnarsson

 

 

Close Popup

RæstiTækni notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Close Popup
Privacy Settings saved!
Friðhelgisstillingar

Við notum vafrakökur til að skrá upplifun viðskiptavina okkar svo við getum betur komið til móts við þá. Hér getur þú með einföldum hætti haft áhrif á þá virkni.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Tæknilegar vafrakökur
Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.
  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

GDPR stillingar
Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á rtk.is
  • CookieConsent

Hafna öllu
Vista
Samþykkja allt
Open Privacy settings